Fyrstu CSRD skýrslurnar

Í ár hafa fyrstu fyrirtækin í Evrópu gefið út sjálfbærniskýrslur samkvæmt tilskipun ESB (CSRD). Frá áramótum hafa meira en 250 fyrirtæki gefið út slíkar skýrslur. Sérfræðingar PwC hafa að undanförnu rýnt 100 skýrslur og af þeirri yfirferð má draga margvíslegan lærdóm. Meðal annars vekur athygli að nokkuð  er um að fyrirtæki sem ekki eru skyldug til að gefa út CSRD skýrslu velja engu að síður að gera það - að hluta vegna krafna hagsmunaaðila um betri sjálfbærniupplýsingar. 

 

CSRD first 100 reporters – innsýn 

Umfjöllun PwC má nálgast hér

Í sjálfbærniskýrslum sem gefnar eru út samkvæmt CSRD eru birtar upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda, loftslagsaðlögun og mótvægisaðgerðir, vinnuskilyrði starfsmanna, stjórnarhætti fyrirtækja og fleira. Af fyrstu 100 skýrslunum að dæma eru mörg fyrirtæki enn að finna sig í nýja fyrirkomulaginu. Skýrslurnar sem PwC skoðaði voru á bilinu 30-300+ blaðsíður. Áhrif, áhættur og tækifæri (IRO) voru allt frá 15 í rúmlega 80. Það kemur á óvart hve breytileikinn í framsetningu er mikill en markmiðið með kröfunum var að auðvelda fjárfestum og öðrum lesendum samanburð og að skilja áhrif og áhættur fyrirtækja. En kröfurnar munu líka taka breytingum, í febrúar lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til verulegar breytingar og einföldun á CSRD sem hluta af Omnibus pakka.

Valkvæð skýrslugjöf 

Af þeim 100 skýrslum sem skoðaðar voru eru um 90% frá fyrirtækjum í fimm Evrópulöndum, þar af þrjú (Þýskaland, Spánn og Holland) sem ekki hafa enn innleitt CSRD í lög. Þau fyrirtæki voru ekki undir lagalegri skyldu samkvæmt CSRD en völdu að gera það — að hluta vegna krafna hagsmunaaðila um betri sjálfbærniupplýsingar. Enda er markmið CSRD að hjálpa fyrirtækjum og hagsmunaaðilum þeirra að skilja betur samspil sjálfbærni og verðmætasköpunar. 

Tvöföld mikilvægisgreining 

Kjarninn í CSRD er að bera kennsl á mikilvæg IRO sem gera á grein fyrir í skýrslu samkvæmt stöðlum ESRS (European Sustainability Reporting Standards). Mikill breytileiki var í því hvernig fyrirtæki gerðu tvöföldu mikilvægisgreininguna – og að hvaða marki þau upplýstu um ferlið. 

Til dæmis, höfðu nærri öll fyrirtæki haft samskipti við innri hagsmunaaðila en flest sögðu lítið um hvort eða hvernig þau hefðu haft samskipti við ytri hagsmunaaðila. Sum fyrirtæki útskýrðu hvers vegna mikilvægisgreiningin leiddi til þess að ákveðnir málaflokkar voru undanskildir en önnur slepptu því. Þrátt fyrir að ekki sé krafist skýringa af þessu tagi (nema vegna loftslagsbreytinga, E1), geta slíkar upplýsingar verið gagnlegar fyrir lesendur. 

Áhrif, áhættur og tækifæri 

Um helmingur skýrslna útlistuðu á milli 20 og 50 IRO og aðferðir við framsetningu voru fjölbreyttar sem gerir samanburð erfiðan. Góðar yfirlitstöflur með vísunum í málaflokka eru afar gagnlegar fyrir lesendur. Að öðru leyti er erfitt að segja meira um IRO á þessu frumstigi.  

Þýðingarmiklir málaflokkar

Algengustu þýðingarmestu málaflokkar voru: Loftslagsbreytingar (loftslagsaðlögun, loftslagsbreytingar og orka), eigið starfsfólk (með áherslu á vinnuaðstæður) og stjórnarhættir (sem nær yfir allt frá fyrirtækjamenningu til samskipta við birgja og vernd uppljóstrara).  

Sjaldgæfustu málaflokkarnir voru vatns- og sjávarauðlindir (E3), líffræðilegur fjölbreytileiki og vistkerfi (E4) og samfélög sem verða fyrir áhrifum (S3) sem er í samræmi við niðurstöður PwC Global CSRD könnunar 2024, þar sem stjórnendur voru spurðir um líklega málaflokka. Algengustu viðbótarmálaflokkar, sem ESRS nær ekki til voru gagnastýring, netöryggi og gervigreind. 

Loftslagsbreytingar 

Aðeins tvö fyrirtæki slepptu loftslagsbreytingum sem þýðingarmiklum málaflokki. Mikill meirihluti birtu markmið um kolefnishlutleysi og loftslagsáætlun sína. Sum markmiða voru í samræmi við Parísarsamkomulagið. 

Í umfangi 3 (losun virðiskeðju) birtu fyrirtækin að meðaltali upplýsingar um helming af 15 flokkum GHG Protocol, algengustu flokkarnir eru keyptar vörur og þjónusta og viðskiptaferðir.    

Óháð staðfesting upplýsinga 

CSRD krefst takmarkaðrar staðfestingar á ófjárhagslegum upplýsingum. Sum fyrirtæki hafa gengið lengra með því að fá hæfileg staðfestingu fyrir ákveðna mælikvarða eða upplýsingar, t.d. varðandi losun gróðurhúsalofttegunda eða starfsmannamál. Eitt fyrirtæki fékk hæfilega staðfestingu á um sjálfbærniskýrsluna í heild sinni. 

Rétt er að taka fram að í skýrslum sem hafa verið birtar hingað til er mjög lítið um fyrirvara og ábendingamálsgreinar. Endurskoðendur vekja athygli á óvissu sem tengist tvöfaldri mikilvægisgreiningu, mikilli óvissu á ákveðnum megindlegum mælikvörðum og erfiðleikum við að bera saman sjálfbærniupplýsingar milli eininga og yfir tíma. 

----- 

Í stuttu máli, fyrsta bylgja CSRD skýrslna er áminning um að á meðan við erum á leið í átt að öflugri og samræmdari sjálfbærniupplýsingagjöf innan ESB, þá er ferðin rétt að byrja. Fyrirtæki eru enn að byggja upp kerfi og getu. Bestu aðferðir eru fyrst nú að birtast. Reglur um skýrslugjöf geta enn breyst í mikilvægum atriðum. Samt er ferðin hafin - og þó að framþróunin verði ekki línuleg héðan í frá, þá er ekki aftur snúið.  

Fylgstu með okkur